ALLT ER BREYTT ÞÓTT EKKERT HAFI BREYST ­ NEMA ÞÚ - HUGLEIÐINGAR UM KENNINGAR SIGVALDA HJÁLMARSSONAR, ­ SÍÐARI HLUTI

 

 HUGLEIÐINGAR UM KENNINGAR SIGVALDA HJÁLMARSSONAR ­ SÍÐARI HLUTI

"ALLT ER BREYTT ÞÓTT EKKERT HAFI BREYST ­ NEMA ÞÚ"

EFTIR HARALD ÓLAFSSON

Sigvaldi túlkar mörg hugtök í indverskri heimspeki og bendir á hve menn missa af réttum skilningi á hugtökunum ef þeir reyna að fella þau að algengum vestrænum hugsunarhætti.



MÉR kemur ekki á óvart hvaða skoðanir Sigvaldi hafði á menningu og aðlögun að menningarformum. Hann skrifar eins og mannfræðingur þegar hann ræðir um hvernig skynjun fólks er háð hinu menningarlega umhverfi og hvernig einstaklingurinn býr sér til samfellda mynd af umhverfinu, og þar er ekki einungis um að ræða hlutlægar staðreyndir, heldur einnig skynreynd, eins og Sigvaldi kallar það, sem ofin er úr þáttum vitneskju og gilda sem ríkjandi eru í viðkomandi menningarsamfélagi. Menn læra á heiminn og mismunandi samfélög móta ólík tungumál, sem síðan móta hugarheim þeirra sem tala viðkomandi tungumál.



Indverjar og Vesturlandabúar gera sér ekki sömu hugmyndirnar um alheiminn og þau lögmál sem ríkja í náttúrunni. Sigvaldi segir:

Fyrst skal tekið fram að Indverji skilur ekki tilveru sína sundur í efni og anda. Sú aðferð hefur ekki valist honum til að gera sér grein fyrir henni. Í staðinn finnst honum allt, hvaða nafni sem nefnist, vera líf og vitund. Efnislíkami mannsins og efnisheimur yfirleitt telst ekki fyrst og fremst hlutur, heldur skynjun, og því óumdeilanlega tilheyrandi vitundarlífi.



Maðurinn sem lifandi vera er meginatriði málsins. Allt líf er mikilsvert. Fyrir því ber að líta svo á að heimspekikerfin sex (hin indversku) séu leiðir til þroska, ekki einhver sniðugheit til að lesa gátur, því hvað stoðar að leysa gátur nema til að hlúa að grósku mannlegs vitundarlífs? Sama gildir um allar andlegar hreyfingar.



Þaraf sprettur að öll þekking er sjálfsþekking. Vísindi og þekking búa ekki yfir neinu gildi útaf fyrir sig, gildi þeirra er þýðing þeirra fyrir manninn (1976:35- 36).


Indverjar setja þroskann öllu ofar, og þeir líta svo á að allt sé á þroskabraut. Þetta er að mati Sigvalda fólgið í því að allt er breyting sem fram fer í öllu sem lífsanda dregur, og þar af leiðandi er allt á leið inn í brahman eða atman, þetta sem einlægast er kannski að kalla það. Og iðkun jóga er þegar allt kemur til alls einungis til að hraða þessari breytingu vitandi vits (1976:38).



Harla fróðleg er umræða Sigvalda um guðshugmyndir Indverja. Úr því að öll tilveran er lifandi heild samtímis því sem hún á yfirborðinu birtist í ótal myndum, er ekkert eðlilegra en guð hafi mörg nöfn, og margvíslega mismunandi eiginleika. Allir guðir eru bara mismunandi andlit á brahman-atman, það-inu. Meðal lærdómsmanna hindúa rekst maður á þá skoðun að hindúismi sé í raun ekki síður eingyðistrú en kristindómurinn. Hindúisminn viðurkennir ekki að trúarjátningar eða kennisetningar séu æðri en upplifun, reynsla og innsæi.



Sigvaldi túlkar mörg hugtök í indverskri heimspeki og bendir á hve menn missa af réttum skilningi á hugtökunum ef þeir reyna að fella þau að algengum vestrænum hugsunarhætti. Hann hafnar því að nirvana þýði útslökknun þó að orðið sé notað um að slökkva á kerti. En sé allt líf eins og haldið er fram í indverskri hugsun getur ekki verið um að ræða að eitthvað eyðist og hverfi. Allt er líf og þar af leiðandi enginn dauði. Atman er líka varasamt hugtak. Oft er það þýtt sál, en algengara er þó að kalla það sjálf. Atman er einfaldlega hinsti veruleiki tilverunnar, brahman, eins og menn upplifa það innra með sér (1976:43-44).



Þá er ekki síður lærdómsríkt að sjá hvernig Sigvaldi fjallar um jóga og þær hættur sem felast í því að telja að jóga sé einhver aðferð til þess að búa til fólk sem gætt er einhverjum óvenjulegum hæfileikum og eiginleikum. Hann varar einnig við því að taka of alvarlega þegar jóga-iðkendum er lofað hreysti og hamingju í fornum indverskum ritum. Þar sé um að ræða skrúðmælgi og segi varla annað en að æfingarnar komi fólki almennt til góða. Öll sölumennska og yfirborðsleg kennsla í jógafræðum er að hans dómi skaðleg. Jóga er aðferð til þess að hraða þroska mannsins á þeirri braut til meiri þroska sem allir eru á.

 

Sjá greinina í heild sinni hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

OM - ॐ

Höfundur

OM
                                          OM

 

 

 

 

Þessi síða er helguð andlegum málefnum

 

Ég segi mennina boðna og velkomna, hvern veg sem þeir nálgast mig; því vegirnir, sem þeir velja sér, eru mínir vegir, hvaðan sem þeir liggja ... 

 

Bhagavad-Gita IV, 11

 

 

Netfang: leifurhl@gmail.com 

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • FB IMG 1755205790198
  • FB IMG 1694031905677
  • Cohen
  • FB IMG 1679170580329
  • FB IMG 1679170580329

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 96738

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband