Zen gaf austurlenskri hugsun þá sérstöku gjöf að viðurkenna að hið hversdagslega væri jafnmikilvægt og hið andlega

 

Zen var oft á móti lífsreglum hefðbundins Búddisma rétt eins og Taóisminn var mótfallinn Konfúsíusarspekinni. Orð voru aðeins hindranir hugans andspænis innsæinu í Zen sem var handan við hugmyndir; allur bálkur búddískra helgirita voru aðeins skýringatextar við persónulegar vangaveltur. Fylgjendur Zen stefndu á milliliðalausa einingu við innra eðli alls sem er, og litu á ytri merki sem hindranir á veginum til raunverulegs skilnings á Sannleikanum. Það var þessi ást á hinu Afstæða sem leiddi til þess að Zen tók svart-hvítar skissumyndir fram yfir klassísk málverk búddísku hefðarinnar með sínum litskrúðuga íburði. Sumir í Zen hefðinni urðu jafnvel frægir fyrir að hafa lagt sig eftir því að sjá Búddann í sjálfum sér frekar en í tákngervingum og myndmáli. Við sjáum japanska prestinn Tanka höggva niður búddalíkneski í eldivið á köldum vetrardegi. „Þvílík helgispjöll!“ sagði maður sem átti leið hjá. „Ég ætla mér að ná sjaríunum úr öskunni,“ sagði munkurinn spaklega. „En þú nærð alveg örugglega engu úr þessu líkneski!“ svaraði maðurinn reiðilega. Þá sagði Tanka, „Ef það reynist vera rétt, þá er þetta sannarlega ekki Búdda og engin helgispjöll heldur.“ Svo sneri hann sér við og ornaði sér við eldinn.

Zen gaf austurlenskri hugsun þá sérstöku gjöf að viðurkenna að hið hversdagslega væri jafnmikilvægt og hið andlega. Það hélt því fram að í æðra samhenginu væri enginn munur á stóru og smáu, að atómið búi yfir sömu möguleikum og alheimurinn. Sá sem leitar að fullkomnun verður að finna að ljósið hið innra skíni í eigin lífi. Skipulag Zen klaustursins er gott dæmi um þetta sjónarhorn. Utan ábótans var hverjum einasta reglubróður gefið sérstakt verkefni í umönnun klaustursins, og viti menn, nýliðarnir voru settir í létt verk meðan þeir munkar sem höfðu náð hvað lengst í iðkun sinni og nutu mestrar virðingar voru settir í erfiðisverkin. Þjónusta við klaustrið af þessu tagi var hluti af iðkuninni og hvert einasta verk varð að leysa af hendi fullkomlega. Þannig urðu til margar alvörukenndar samræður meðan arfinn var reittur og rófan skræld, eða þá þegar teinu var skenkjað. Öll hugsjón tesiðarins er afleiðing þessarar hugmyndar í Zen um hið stórfenglega í smávægilegustu andartökum lífsins. Taóisminn lagði til grunninn fyrir listræna hugsjón, Zen gerði hana praktíska.

 

Taóismi og Zen, þriðji kafli úr Bókinni um te eftir Kakuzo Okakura, í íslenskri þýðingu Mikhaels Óskarssonar. Sjá í heild hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

OM - ॐ

Höfundur

OM
                                          OM

 

 

 

 

Þessi síða er helguð andlegum málefnum

 

Ég segi mennina boðna og velkomna, hvern veg sem þeir nálgast mig; því vegirnir, sem þeir velja sér, eru mínir vegir, hvaðan sem þeir liggja ... 

 

Bhagavad-Gita IV, 11

 

 

Netfang: leifurhl@gmail.com 

Júní 2025
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • FB IMG 1694031905677
  • Cohen
  • FB IMG 1679170580329
  • FB IMG 1679170580329
  • FB IMG 1653925921669

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.6.): 14
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 96404

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband