Reynsla og tilraunir með orkustöðvarnar

Reynsla og tilraunir með orkustöðvarnar I



EFTIR AÐ hafa skoðað vandlega efni um orkustöðvarnar voru það tvær spurningar sem sóttu á mig.
Fyrri spurningin var einfaldlega: “Mun hinn almenni lesandi trúa því að orkustöðvarnar séu til?" Ég trúi á tilvist þeirra og til að leggja lóð á vogarskálar sannana fyrir þessari staðhæfingu langar mig að lýsa hér þeirri reynslu af orkustöðvunum sem ég hef haft á þrjátíu ára ferli sem yogaiðkandi. Þar að auki langar mig að lýsa þeim vísindalegu athugunum sem ég hef gert á tilvist orkustöðvanna og meðfylgjandi orkukerfum.
En fyrst vil ég taka fyrir síðari spurninguna sem kom upp vegna fyrrgreindra athugana. Hún fjallar um vanda sem ég á í vegna staðhæfingar Leadbeaters um að þær orkustöðvar sem hann upplifði, væru þær einu sönnu og að hinar hefðbundnu austrænu framsetningar á orkustöðvum væru aðeins táknmyndir.
Sjálfur hef ég ekki upplifað táknin sem slík í sambandi við vöknun eigin orkustöðva. Aftur á móti hefur móðir mín, einföld kona án nokkurrar þekkingar á sanskrít, gert það. Hún minntist oft á það að hún sæi tákn sem líktist seglskútu á hvolfi inni í sexarma stjörnu í hjartastöð sinni. Við veltum því oft fyrir okkur hvað þetta mundi tákna. Það var ekki fyrr en ég fór að læra sanskrít mörgum árum síðar að sú staðreynd sló mig, að móðir mín hafði séð táknið sem samkvæmt hefðinni tengist hjartastöðinni: Bija mantran “yam" umlukið stjörnu. Það er því erfitt fyrir mig að fallast á viðhorf Leadbeaters.
Ef við tengjum þetta staðhæfingu Satyananda um að það sé í raun og veru til vídd eða svið þar sem möntrur og jöntrur eiga sér tilvist, er ég farinn að hafa það á tilfinningunni að þær orkustöðvar sem Leadbeater upplifði, séu hugsanlega orkustöðvar sem tilheyra ljósvakalíkamanum, fremur en hinar æðri orkustöðvar í geðheimum eða á orsakasviðinu. Þetta kann að einhverju leyti að skýra þá undarlegu hegðun Leadbeaters að sleppa svadhishthana orkustöðinni, en tala þess í stað aðeins um “miltisstöðina", þ.e. manipura. Ég veit ekki hvort hann einfaldlega leit fram hjá svadhishthana eða e.t.v. afneitaði henni viljandi af einhverjum ástæðum.
Frá unga aldri var ég leiddur til andlegs veruleika. Bæði móðir mín og fósturmóðir sem voru andlegir leitendur, fóru með mig frá fjögurra ára aldri til mustera og helgistaða í fjöllunum á Shodoeyju, fæðingarstað mínum. Þær kenndu mér að kyrja búddhiskar sútrur og shintó-bænir og við þrjú kyrjuðum klukkutímum saman.
Þær fóru einnig með mig á staði sem höfðu orð fyrir að hafa mikla orku vegna trúarlegra iðkana og einlífis, svo sem til Kobo-fossanna. Þennan stað man ég sérstaklega vel. Þangað var átta kílómetra löng ganga um þéttan skóg sem var myrkur jafnvel um hábjartan dag og allt svæðið var morandi af vatnasnákum. Mér fannst þetta mjög ógnvekjandi.
Á þessum árum með mæðrum mínum var ég fræddur um og fékk að upplifa tilveru yfirmannlegra vera, vitundarvera sem lifðu á æðri tilverusviðum. Það hlýtur að hafa verið sambland þessara umhverfisþátta og karma mitt sem leiddi mig til upplifunar æðri tilverustiga. Þetta var ástæðan fyrir að ég hóf að iðka yoga fyrir þrjátíu árum. Leyfið mér nú að fara yfir þá sögu með ykkur.

Vakning á muladhara-orkustöðinni

Ég var tuttugu og fimm ára. Fyrsta iðkun mín fólst í því að vakna klukkan þrjú á hverjum morgni, iðka asönur (yogastellingar) í u.þ.b. hálftíma og sitja síðan og hugleiða í þrjá til fjóra tíma. Fyrri hluti hugleiðingarinnar var helgaður pranayama (öndunaræfingum) en hinn síðari fólst í fasthygli á ákveðna orkustöð.
Hér er byrjunar pranayama-aðferðin sem ég fylgdi:

Andaðu inn lífsorku (prana) um vinstri nösina niður í neðri hluta kviðarins í fjórar sekúndur. Haltu lífsorkunni í uppþemdu neðra kviðarholinu í átta sekúndur. Lyftu síðan kundalini (slöngueldinum) upp frá rófubeininu upp í neðra kviðarholið (svadhishthana-orkustöðina) og herptu saman kviðvöðvana. Sjáðu fyrir þér blöndun og sameiningu prönunnar og kundalini í átta sekúndur. Andaðu frá þér í gegnum hægri nösina í fjórar sekúndur. Þannig tekur ein hringferð öndunar tuttugu og fjórar sekúndur. Endurtaktu allt ferlið með því að anda inn um hægri nös og út um þá vinstri, o.s.frv. til skiptis.

Ég gerði þetta frá fjórtán til tuttugu og einu sinni í senn. Eftir einn til tvo mánuði gat ég lengt tímabil kumbhaka (að halda niðri í sér andanum) í eina til eina og hálfa mínútu. Þegar ég einbeitti athyglinni að svadhishthana eða anja-orkustöðinni, hættu veraldlegar hugsanir smám saman að koma upp í hugann. Ég byrjaði að upplifa það að líkami minn og hugur fylltust geysilegri orku.
Vegna iðkananna byrjaði líkamlegt og sálrænt ástand mitt að taka breytingum. Ég hafði oft átt við truflanir í maga og eyrum að stríða. Ég hafði einnig verið kvíðinn og óvenjulega næmur fyrir veðráttu, bæði líkamlega og andlega. Innan sex mánaða eftir að ég byrjaði iðkunina voru þessi vandamál horfin.
Við frekari iðkun fór ég að taka eftir nýjum skynjunum. Ég hafði kitlandi tilfinningu við rófubeinið, flöktandi tilfinningu í enninu og hvirflinum og hitatilfinningu í neðra kviðarholi. Ég gat heyrt hljóð, eitthvað í líkingu við býflugnasuð, nálægt rófubeininu. Í hinu daglega lífi varð lyktarskynið svo næmt að ég gat ekki þolað ertandi lykt.
Þetta ástand hélst í tvo til þrjá mánuði. Dag einn, þegar ég hugleiddi eins og venjulega við altarið, varð mér óvenjulega heitt í neðra kviðarholinu og sá þar kringlótt svart-rauðleitt ljós eins og eldhnött sem var að því kominn að springa, í miðju hvítu skýi. Skyndilega þaut ósegjanleg orka upp mænuna upp í hvirfilinn, og þótt það tæki aðeins eina eða tvær sekúndur, lyftist líkami minn nokkra sentímetra frá gólfi. Ég varð skelfingu lostinn. Líkaminn var allur í báli og mikill höfuðverkur kom í veg fyrir að ég gæti gert nokkuð þann daginn. Hitatilfinningin hélt áfram í tvo til þrjá daga. Mér fannst að höfuðið væri að springa úr orku. Að slá sjálfan mig í námunda við “hlið Brahman" í hvirflinum var það eina sem linaði ástandið.
Þetta var þá fyrsta skiptið sem ég upplifði ris kundalini shakti (slöngueldsins) gegnum sushumna (höfuð orkurásina í mænugöngunum) upp í hvirfilinn. Ég upplifði ekki eins mikil líkamleg eða hugræn vandræði og oft eru tileinkuð þessari reynslu, sennilega vegna þeirrar staðreyndar að hlið Brahman var hjá mér þegar opið og shakti-orkan gat flætt áfram út í víddir geðheimsins.

 

Hiroshi Motoyama

Sjá: http://www.ismennt.is/not/birgirb/Reynslav96.html 

 





« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

OM - ॐ

Höfundur

OM
                                          OM

 

 

 

 

Þessi síða er helguð andlegum málefnum

 

Ég segi mennina boðna og velkomna, hvern veg sem þeir nálgast mig; því vegirnir, sem þeir velja sér, eru mínir vegir, hvaðan sem þeir liggja ... 

 

Bhagavad-Gita IV, 11

 

 

Netfang: leifurhl@gmail.com 

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • FB IMG 1755205790198
  • FB IMG 1694031905677
  • Cohen
  • FB IMG 1679170580329
  • FB IMG 1679170580329

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband