Viðtal við Eckhart Tolle - 1. hluti

HINN EINFALDI SANNLEIKUR

Lauslega þýddur hluti viðtals við Eckhart Tolle

Mér er kunnugt um að þér finnist persónuleg saga ekki mikilvæg en samt sem áður langar mig að spyrja þig nokkurrar spurningar um líf þitt og bakgrunn. Hvernig voru uppvaxtarárin þín, hvar ólstu upp og í hvers konar fjölskyldu?

Ég ólst upp í norð-vestur hluta Þýskalands þar til ég varð 13 ára. Faðir minn var blaðamaður og móðir mín húsmóðir. Foreldrar mínir skildu þegar ég var 12 ára og faðir minn yfirgaf hið hefðbundna líf og flutti til Spánar. Ég varð mjög óhamingjusamur í skóla og þegar ég varð 13 ára neitaði ég alveg að mæta í skólann. Þetta var eina uppreisnargjarna hegðun mín sem barns en ég var á heildina litið mjög auðmjúkur og hlýðinn. Eitthvað innra með mér kom í veg fyrir að ég héldi áfram í skóla, ég gat einfaldlega ekki gert það lengur og hætti. Móðir mín vissi ekki hvað hún ætti að gera við mig þannig að það var að lokum ákveðið að ég skyldi flytjast til föður míns til Spánar sem þá hafði gifst á nýjan leik og lifði mjög óhefðbundnu lífi. Hann lifði á sparifé sínu í nokkur ár en fór síðan að vinna þar. Ég varði því unglingsárunum frá 13 til 19 ára á Spáni og spænskan varð mitt annað tungumál. Ég var tekinn út úr þeirri menningu sem ég hafði búið í fyrstu 13 ár æfi minnar og komið fyrir í mjög ólíku umhverfi. Það var sennilega af hinu góða því að ef að maður ver öllu lífinu í einu ákveðnu menningarlegu umhverfi hefur maður tilhneigingu til að verða mjög skilyrtur af því umhverfi án þess að gera sér grein fyrir því. Ég held að e.t.v. hafi menningarleg skilyrðing mín ekki orðið eins djúp eða stíf þar sem ég fékk að upplifa ólíka menningarheima sem barn. Faðir minn var alltaf mjög óvenjuleg persóna og mundu sumir kalla hann sérvitring. Þegar ég kom til Spánar spurði hann mig hvort ég vildi fara í skóla og ég svaraði auðvitað með neii. Hann sagði þá allt í lagi farðu þá ekki í skóla og gerðu það sem þú vilt. Ég fékk því tækifæri til að lesa ákveðnar bækur sem mig langaði að lesa og nema.  Ég fór að lesa bókmenntir, fór í tungumálatíma seinni partinn og á kvöldin. Ég lagði líka stund á önnur viðfangsefni sem ég hafði áhuga á eins og stjörnufræði ofl. Ég ólst því upp á unglingsárunum án þess þrýstings sem flestir unglingar upplifa. Og þegar ég varð 19 ára flutti ég til Englands og fór að búa upp á eigin spýtur.

Fórstu þá til að mennta þig í Englandi?

Já, á Englandi var mér boðin vinna, þótt ég hefði ekki neina formlega menntun sem var hálfgert kraftaverk. Ég kenndi þýsku og spænsku í nokkur ár í tungumálaskóla. Síðan byrjaði nokkurs konar leit en jafnframt fór að þróast þunglyndi sem ég upplifði á tímabilum og ég fór að lifa í auknum kvíða, einhverskonar almennu kvíðaástandi. Ég fór að leita svara við lífsvandanum, og leitaði þeirra hjá heimspekinni og vitsmununum. Ég fór að lesa mikið og hélt að ég finndi svörin hjá háskólunum, að prófessorarnir hefðu svörin. Ég tók því prófin sem ég þurfti til að komast inn í háskóla, í kvöldskólanum. Síðan fór ég í Lundúnarháskólann og lagði stund á tungumál og bókmenntir. Ég varð óhamingjusamari og óhamingjusamari en hélt áfram leit minni og drakk í mig meiri og meiri þekkingu. Að lokum komst ég að því að þar voru ekki svörin við lífsvandanum.  Ég minnist þess að einn prófessorinn í Lundúnarháskóla sem ég kunni mjög vel við og fór í tíma hjá, var búinn að fremja sjálfsmorð þegar við áttum að mæta í tíma hjá honum á mánudagsmorgun.  Mér var mjög brugðið við þetta og ég gerði mér grein fyrir því að þetta fólk sem ég leitaði svara hjá hafði heldur ekki nein svör. En þunglyndið stigmagnaðist þrátt fyrir að það gekk vel hjá mér í prófunum, því ég lagði hart að mér við lærdóminn, í raun vegna ótta. Ég var drifin áfram af kvíða. Eftir að ég útskrifaðist úr Lundúnarháskóla gerði ég ekkert í eitt ár.  Þetta ár varð ég jafnvel enn óhamingjusamari og þunglyndari og innri breyting átti sér skyndilega stað innra með mér. Það var á 29. aldursári mínu sem ég vaknaði skyndilega upp, en það var ekki óvenjulegt fyrir mig að vakna upp um nætur í miklu þunglyndi og ótta á sama tíma. Það átti sér aftur stað þessa nótt og það kom upp hugsun hjá mér sem sagði: “Ég get ekki lifað lengur með sjálfum mér”. Þessi hugsun endurtók sig í huga mínum þessa nótt, en þá leit ég skyndilega á þessa hugsun.  Á vissan hátt bakkaði ég  út úr henni og leit á hana. Þetta er einkennileg hugsun! Ég get ekki lifað með sjálfum mér! Er ég einn eða er ég tveir? Þessi hugsun virtist sýna að það væru tvær manneskjur hérna. Ég og sjálfið sem ég get ekki lifað með. Ég hafði ekki svar við þessari spurningu, þetta var spurning sem olli mér heilabrotum. Löngu seinna minnti þetta mig á koan sem þeir hafa i Zen, sem eru ráðgátur sem notaðar eru til að stoppa hugann. Frægt koan er t.d. “hvernig hljóð heyrist þegar klappað er með annarri höndinni?” en við því er ekki vitsmunalegt svar. Þannig að spurningin sem vaknaði í huga mér hafði heldur ekki svar á vitsmunasviðinu. Hver er ég og hver er ég sjálfur, sem ég get ekki lifað með?  En þessi spurning hrinti af stað innri umskiptum, eitthvað innra með mér sem ég skildi ekki þá, hlýtur að hafa aðgreint sig frá sjálfinu, hinum óhamingjusama mér eins og ég kallaði það seinna.  Þannig að það var nokkurskonar aðgreining hið innra, svo að ég er, sem ég bar seinna kennsl á sem vitundina sem ég er, aðgreindi sig frá skilyrtu verunni, skilyrtu vitundinni sem sá mér fyrir skynjun á  sjálfskenni (identity), sjálfi. En sjálfskennið samanstóð að miklu leiti af óhamingjusamri sögu. Síðan var eins og ég hefði dregist inn í einhverskonar orkuhvirfil, eins og ég væri að hverfa í hann og það var engin mótstaða. Ég heyrði eitthvað sem var næstum eins og rödd innra með mér sem sagði; veittu engu mótstöðu og ég lét af allri móstöðu. Tilfinningin var eins og ég hyrfi inn í ekkertið og ég man ekki mikið meira þessa nótt. Eina sem ég veit er að næsta morgun þegar ég vaknaði, opnaði augun og horfði í kring um mig í herberginu virtist allt vera eins og ég væri að sjá það í fyrsta sinn. Ferskt, nýtt og lifandi. Ljósið sem kom inn um gluggana og kunnuglegir hlutir á borðinu, virtust ferskir nýir og lifandi. Ég fór á fætur og fór út í gönguferð og ég horfði í kringum mig, allt virtist svo friðsælt jafnvel umferðin í borginni virtist svo friðsæl. Og ég vissi að eitthvað furðulegt hefði gerst, allt var skyndilega fullt af lífi og ró,  og ég vissi ekki af hverju. Þetta hélt áfram og þessi innri friður sem var bakgrunnur allrar upplifunar og bakgrunnur allrar skynjunar, jafnvel bakgrunnur hugsunar minnar hefur ekki yfirgefið mig síðan. En það tók mig langan tíma að skilja þetta, geta sett þetta í orð. Skömmu síðar fór ég að kanna aðrar andlegar kenningar í fyrsta sinn, búddisma, kristni og andlegar samtímakenningar. Ég bar mjög fljótt kennsl á sannleikan sem er í mörgum tilfellum falinn undir niðri, stundum margra alda gömlum menningar útgáfum, túlkunum og mistúlkunum. Ég sá sannleikann sem er í upprunalegu kenningum búddisma og kristni sem vörpuðu ljósi á það sem hafði komið fyrir mig. T.d. tók ég upp nýja textamentið og las orð Jesú: “sá friður sem nær út fyrir allan skilning”. Þetta er nákvæmlega það sem ég finn fyrir, ég hef þennan frið sem ég skil ekki hvað er. Jesú hlýtur því að hafa fengið sömu upplifunina, frið sem átti sér enga ástæðu í hinum ytri heimi. Hann kom ekki vegna þess að eitthvað undursamlegt gerðist í umhverfinu. Þannig virtist hann ekki eiga sér neinar ytri orsakir. Seinna meir heimsótti ég Zen kennara og kom strax auga á sannleikann í Zen. Þeir hjálpuðu mér einnig að skilja hvað hafði komið fyrir mig og settu það í víðara samhengi. T.d. man ég eftir því að hafa talað við einn búddamunk sem sagði eða talaði um endinn á því að þurfa alltaf að vera að hugsa. Hann sagði að á endanum snýst Zen um að hugsa ekki. Ég gerði mér þá skyndilega grein fyrir því sem ég hafði ekki áttað mig á áður, að það hafði dregið úr hugsanaferlum  mínum um 80% síðan þarna um nóttina. Ég hugsaði í raun og veru ekki svo mikið lengur og þess vegna var friðurinn svona mikill. Þá gerði ég mér grein fyrir því að þessi stöðugi hugræni hávaði eins og ég kalla hann núna, sem er hinar áráttukenndu og að miklu leiti gagnslausu hugsanir sem flestir virðast stöðugt skuldbundnir, hafði endað. Það komu enn fram einhverjar hugsanir og ég gat notað hugsun þegar ég þurfti á því að halda, og af og til komu hugsanir inn og út en það voru löng tímabil engrar hugsunar. Í þessum löngu bilum eða hléum engrar hugsunar var þessi undursamlega upplifun á innri friði. Ég áttaði mig á að innri friður hafði verið þarna áður jafnvel þegar ég var ennþá kvíðinn en hafði einfaldlega verið hulinn af kvíðanum og ofvirka huganum. Þetta þróaðist síðan smátt og smátt yfir í andlega kennslu.

Andlega kennslan leitast við að sýna fólki að það hefur nú þegar innra með sér það sem það er ef til vill að leita að fyrir utan sig. Lífsgleðin, friðurinn, skynjun á djúpri innri fullnægju er þegar til staðar í sérhverri manneskju, sem þeirra innsti kjarni. Þetta er ekki spurning um að þurfa að fá eða öðlast eitthvað nýtt sem er oft það sem andlega leitandi fólk leitar að. Allir eru að leita eftir að öðlast eitthvað til að fullnægja sjálfum sér. Það leitar á ýmsum sviðum,  í efnislegum hlutum, í upplifunum eða með að safna að sér þekkingu eða auðæfum. Andlegir leitendur vilja bæta við andlega reynslu sína á því hverjir þeir eru eða finna sjálfan sig á einhverjum tímapunkti í framtíðinni en þú getur það ekki. Vegna þess að ef þú lítur til framtíðarinnar til að finna sjálfan þig, þá ferðu nú þegar á mis við þig, kjarna þess sem þú ert sem þú finnur aðeins í núinu. Það tók mig mörg ár að skilja hvað hafði komið fyrir mig þarna um nóttina. Í ferlinu að skilja það, kom á sama tíma af og til fólk til mín og spurði spurninga. Þannig að smám saman gat ég farið að tala um það og ég fór að geta tekið eftir því sama og ég hafði farið í gegnum, hjá öðrum. Þetta er sami vandinn nema ef til að því undanskildu að ég þjáðist sárar en margir aðrir. Það er allt og sumt. Ég var jafnvel enn dýpra samtvinnaður hávaðasama huganum, tilfinningalegu ringulreiðinni en eðlilegt var, en sama gangverk er að störfum í öllum.

Elísa Sveinsson þýddi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

OM - ॐ

Höfundur

OM
                                          OM

 

 

 

 

Þessi síða er helguð andlegum málefnum

 

Ég segi mennina boðna og velkomna, hvern veg sem þeir nálgast mig; því vegirnir, sem þeir velja sér, eru mínir vegir, hvaðan sem þeir liggja ... 

 

Bhagavad-Gita IV, 11

 

 

Netfang: leifurhl@gmail.com 

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • FB IMG 1755205790198
  • FB IMG 1694031905677
  • Cohen
  • FB IMG 1679170580329
  • FB IMG 1679170580329

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband