Gamalt viðtal við Jakusho Kwong-roshi

 

Hér á landi er hópur sem iðkar zen ­ hugleiðslu, sem hefur það eitt markmið að enduruppgötva góðsemina sína. Kennari hópsins er Jakusho Kwong-roshi, sem hefur dvalið hér á landi síðastliðna daga. Súsanna Svavarsdóttir spjallaði við Kwong-roshi um tilgang zen-iðkunar og ólíkar hefðir búddismans. HEILINN þarf hvíld. Það er svo mikið af áreitum á öll skynfæri í dag. Við erum að nálgast aldamót, maðurinn hefur náð svo langt í tækni og tölvum, en eitthvað vantar; við erum stöðugt að fylgjast með, læra að hugsa flesta hluti upp á nýtt, en heilinn þarf hvíld til að kyrra og endurnýja skapandi hugsun, sem ber í sér visku og samlíðan sem kemur þér og öðrum til góða. Hugurinn er stanslaust upptekinn af uppspuna hugsanastarfsins, sem hindrar okkur í því að geta notið lífsins," segir Jakusho Kwong-roshi, þegar við setjumst niður til að ræða um búddismann, sem sumir laðast að, aðrir hræðast. Eitt af því fyrsta sem ég tek eftir í fari lærimestarans, er hversu glaðlyndur og hláturmildur hann er.



Þegar ég spyr hann hvers vegna fólk á vesturlöndum hræðist búddismann, svarar hann því til að fólk hræðist það sem það þekkir ekki. Þegar ég spyr hann hvort heimurinn sé ekki á heljarþröm, með vonleysi og stóru núlli fyrir unga fólkið og allt að fara í vaskinn, segir hann: "Þetta tómarúm skapar ný tækifæri fyrir ungt fólk. Það hefur tækifæri til að líta inn á við."



En hvað er zen og hver er Jakusho Kwong roshi?



Zen kemur frá Búdda. Á 2600 árum hefur zen borist frá einum kennara til annars, líkt og vatn sem hellt er úr einni skál í aðra. Frá Japan barst það til Ameríku með S. Suzuki-roshi. Einn af arftökum hans er Jakusho Kwong-roshi, kennari íslenska zen-hópsins. Kwong stofnaði "Sonoma Mountain Zen Centre," í Norður-Kaliforníu árið 1974. Þar kennir hann zen-iðkun, sem miðast við hversdagslífið. Hann er kvæntur og á uppkomna syni. Hann ferðast árlega til Íslands og Póllands til að kenna zen-hugleiðslu.



"Þegar líkami, öndun og hugur eru samvirk," segir Roshi, "kemur manngæskan í ljós. Það skiptir ekki máli hvaða trúarbrögðum þú tilheyrir þegar þú iðkar zen, því iðkunin er til þess að þú verðir þú sjálfur. Þegar það gerist felur hún allt í sér, sem þýðir að þú getur iðkað með Búdda, Bodhidharma og Jesú Kristi."



Nú ert þú kvæntur og átt uppkomna syni. Eiga ekki búddamunkar að lifa einlífi og stunda hugleiðslu?



Það eru til jógar sem búa í fjöllunum og iðka hugleiðslu, en þeir eru ekki margir. Ég þekki enska konu, Ani Tensin Palmo, sem einangraði sig í tólf ár, en hún er ekkert upphafin, eða heilög. Hún er mjög venjuleg og yndisleg manneskja sem lærði að sjá algerlega um sig sjálf ­ og er um þessar mundir að opna nunnuklaustur í Kaliforníu."



Hjálpar það fólki að draga sig í hlé frá lífinu og iðka hugleiðslu á fjöllum? "Já, vegna þess að fólk man alltaf eftir erfiðum tímum. En samkvæmt okkar hefðum er þetta mjög sjaldgæft. Við leggjum aðaláherslu á að vinna með fólki; deila visku og reynslu með heiminum, ekki halda öllu fyrir sjálfan þig. Það er ekkert yfirskilvitlegt við zen-iðkun, heldur er það nauðsynlegt til að hjálpa fólki sem þarfnast hjálpar. Sú reynsla sem maður öðlast er ekki bara fyrir trúað fólk, heldur allt mannkynið.



Það er ekki heldur algengt að fólk iðki zen alla ævi. Jafnvel í Tíbet er það innan við 10% af munkum og nunnum. Zen er mjög erfitt og þegar Búddamunkur, eða nunna fer, þá er það til að horfast í augu við, eða takast á við, eitthvað sem ekki verður gert undir þeim kringumstæðum sem þau búa við."



Til eru margar tegundir af búddisma í heiminum. Talað er um Austur-Asíu búddisma og Suður- Asíu búddisma, en til grundvallar eru þrír skólar: Theravadin, sem er kenndur í Suðaustur-Asíu, Mahayana, sem er kenndur í Kína, Japan og Kóreu, í Tíbet er það Vharayana. Síðan eru ýmis afbrigði undir þessum skólum. Sá búddismi sem iðkaður er við Sonoma Mountain Zen Centre í Kaliforníu og Jakusho Kwong roshi kennir, er frá japan. "Við erum eins konar útlendinga- eða sendisveit," segir hann. "Við verðum að fara með okkar mál í gegnum aðalstöðvarnar í Japan ­ og það er reyndar dálítið merkilegt, að þar eru ekkert allir sammála um að það eigi að iðka zen annars staðar en í Japan. En búddisminn deyr, ef honum er haldið í Japan. Andleg iðkun er fyrir allan heiminn, ekki bara einhverja fáa útvalda.


Heimurinn þarf á þeirri heimspeki að halda sem felur í sér skilning og virðingu fyrir kjarna lífsins."



Hvað áttu við?


"Ég skal segja þér sögu um Sutra. Sutra eru kenningar sem koma frá því fólki sem hefur öðlast skilning: Það var einu sinni fullt af börnum í 500 herbergja húsi. Þau skemmtu sér við að hlaupa úr herbergi í herbergi. Faðirinn var fyrir utan og sá að það var kviknað í húsinu. Eldurinn breiddist mjög hratt út, en hann vildi ekki hræða þau. Svo hann smíðaði blómabíl . . .



Á sama hátt er heimurinn að brenna."



En hvernig stendur á því að það tekur svona langan tíma að kenna mannkyninu að slaka á, anda og hreinsa hugann og bera virðingu fyrir því sem lifir?



Zen-búddismi er 2600 ára gamall, en vestrænn búdismi er rúmlega hundrað ára. Ég var með Dalai Lama á ráðstefnu árið 1993, sem var sögulega fyrsta vestræna ráðstefnan sem haldin var með honum, þar sem hann býr á Indlandi. Við berum mikla virðingu fyrir Dalai Lama. Engu að síður bentum við honum á mjög slæmt misrétti, hreinlega kynjafordóma, sem viðgangast í helgisiðum í Tíbet. Þar hafa nunnurnar enga stöðu. Hinni kvenlegu vitund er engin virðing sýnd. Það olli nokkurri undrun á ráðstefnunni að við skyldum gagnrýna þetta við Dalai Lama, en það gerði hann ekki. Við héldum að hann myndi kannski hlæja að okkur, en hann grét. Hann sagðist ekki hafa hugsað út í þetta og sagðist myndu breyta þessu. Hann myndi miða við töluna sex. Við spurðum hvort hann ætti við sex ár, en hann sagði sex mánuði.



Þetta sýnir hvað öll þróun tekur langan tíma. Zen-iðkun er 2600 ára gömul, en við erum núna fyrst að koma að þessum þætti."


Eitt af því sem kom mér á óvart, er að munkar skuli geta verið kvæntir. Er það algengt?



"Nei, það er ekki algengt meðal munka og nunna. En sum okkar eru það. Það eru kostir og gallar sem fylgja hvoru tveggja. Þeir sem eru ekki giftir, skilja ekki gift fólk eins vel; þeir vita ekki hvað fer fram á bak við tjöldin og hvaða vandi getur komið upp á, í sambandi við barnauppeldi.



Þú talar um "realization," og ég leyfi mér að nota orðið "skilningur" á íslensku. Hvað áttu nákvæmlega við með því?



"Realization er fjarvera græðgi, reiði og fáfræði og næst með iðkun zen-hugleiðslu. Hins vegar gerist þetta ekki hratt, heldur er lífstíðar verkefni. Kjarninn í zen er sterk, ævilöng seta með öðrum, þar sem hugur og líkami eru í kyrrð og athyglin beinist að önduninni sem er brú á milli hugar og líkama. Ögunin í zen, felst í því að taka eftir andardrættinum hér og nú. Þetta er grundvallaratriði í annars ólíkum formum zen-iðkunar, em leiða til skilnings á sannleikanum.



Þú getur upprætt græðgi, reiði og fáfræði. Þá breytist líka samband þitt við umheiminn. Samband þitt breytist við fjölskyldu, vini og aðra í kringum þig. Þeir sem hafa upprætt þessa þætti, hætta að vera grimmir.



En búddisminn snýst ekki um að gera þig að betri manneskju ­ því það ertu þegar ­ heldur snýst hann um að finna þessa grundvallar góðvild sem allir eru fæddir með. "



Í bæklingi sem íslenski zen-hópurinn hefur látið prenta segir: "Í nútímasamfélagi skortir oft mikilvæga mannlega eiginleika, eins og kyrrð, hlýju, samúð og hamingju. Með agaðri zen-iðkun getum við hugsanlega eytt streitu, kvíða og vonleysi, sem mörg okkar upplifa í daglegu lífi.



Það er einhvern veginn sama hvernig ég sný þessum bæklingi, ég sé ekkert skelfilegt út úr þessu, þetta hræðir mig ekki neitt. Hvers vegna er svona mikill ótti og fordómar á vesturlöndum gagnvart einhverju sem miðar að vellíðan og betri heimi?



"Þetta er eitthvað nýtt og útlenskt og það kann að vera að þeir sem eru fulltrúar neyslusamfélagsins, sjái einhverja ógn í zen-iðkun. Hún kennir þér að þú þurfir ekki á því að halda sem verið er að reyna að selja þér. Og sá sem er sjálfum sér nógur er ógnandi við neyslusamfélag. Þú talar um vesturlönd, en ég vil fremur tala um heiminn, heldur en austur-vestur, vegna þess að fordómar og ótti finnast alls staðar."



En eruð þið ekki að reyna að breiða út ykkar trúarbrögð í kristnum vesturlöndum?



"Nei, búddisminn hefur engan áhuga á því að fólk skipti um trúarbrögð. Það eru til alheimssamtök kristinna zen-iðkenda. Stofnandi þeirra var Faðir John Main, hann er úr Benediktsreglunni í Kanada. Þeir lærðu hugleiðslu hjá hindúum og þeir kirja. Við kirjum ekki, heldur þjálfum einbeitingu. Hver og einn velur þá leið sem hentar honum best til að iðka hugleiðslu. Þetta snýst ekki um ein trúarbrögð gegn öðrum. Hugleiðsla hefur ekkert með trúarbrögð og helgisiði að gera. Hún fer út fyrir mörk hins sístarfandi huga. Það er ekki hægt að kenna hana ­ bara þjálfa hana.



Faðir Laurence Freeman, sem er arftaki Föður Johns Main, hélt ráðstefnu fyrir kristna kennimenn og búddista fyrir nokkrum árum. Yfirskrift ráðstefnunnar var, "The Good Heart" (Góða hjartað). Ráðstefnan tókst mjög vel og meðal annars hélt Dalai Lama fyrirlestur um guðspjöllin ­ sem var stórkostlegur. Í lok ráðstefnunnar vildu allir verða búddistar, en það vildi Dalai Lama ekki. Hann sagði að það ættu ekki allir að vera eins. Hann vildi að þeir væru áfram kristnir ­ en hann vildi bara að þeir iðkuðu dýpri kristni. Búddismi snýst nefnilega um það eitt ­ að fólk sé það sem það er."



Nú er hugleiðsla oft tengd hugmyndum um annað líf, ná sambandi við framliðna, endurholdgun og svo framvegis. Og margir hér á landi álíta þetta óttalegt kukl.



"Zen-iðkun snýst um að vera í líkamanum, hér og nú ­ og hvergi annars staðar. Og þar skiptir hugurinn mestu máli. Maður heyrir fólk oft segja, ég er ekki manneskja hugsunar, heldur tilfinningavera. En það er ekki hægt. Hugurinn stjórnar öllu. Ef þú hugsar ekki, getur þú ekki verið í líkama. Þú þarft að hafa tengsl milli líkama og hugar til að vera meðvitaður um stað og stund. Ef þú ert það ekki, getur þú ekki notið augnabliksins ­ en það er einmitt það sem við viljum öll gera.



Zen-iðkun er ekki trúarbrögð og snýst ekki um að draga sig í hlé frá samfélaginu. Ég vann sem grafískur hönnuður til að sjá fjölskyldunni minni farborða. Flestir búddistar á Vesturlöndum eru vinnandi fólk. Þeir eru leikmenn. Þetta snýst um að vinna sjálfan sig; að vera í hjarta heimsins, en ekki utan þess."



Hvað kom til að þú komst til Íslands?



"Þegar ég var lítið barn hengdu foreldrar mínir Mikka músar og Andrésar andar landakort á vegginn fyrir ofan rúmið mitt. Ég var alltaf að teygja mig upp, benda efst á kortið og reyna að segja Ísland," segir roshi hlæjandi og bætir við: "Það er óttalega barnalegt að heyra 62 ára gamlan mann segja þetta ­ en þannig kynntist ég Íslandi fyrst.



Svo var það árið 1986, um haustið. Við höfðum fengið okkar fyrsta nema frá Íslandi, ég var á leið á ráðstefnu í Póllandi, sem ég hélt að yrði mjög góð en var það ekki. Mér datt í hug að koma við á Íslandi í leiðinni og síðan hef ég komið hingað á hverju ári. Svo koma íslenskir nemar til okkar í mánuð, í Ango (sem er kyrrðardvöl), sem við bjóðum upp á í ágúst og febrúar."


Og hvað er gert?



"Við hugleiðum, hvort sem við sitjum, göngum, borðum, eða vinnum. Meginform hugleiðslunnar er sitjandi hugleiðsla. Þegar við höfum náð tökum á henni tjáum við það í okkar daglega lífi. Síðan æfum við hneigingar og hugleiðslu ­ 108 sinnum í senn."



Til hvers?



Hugleiðsla er sársaukafull, vegna þess að hún tekur á öllum þáttum líkama og tilfinninga. Og þegar þú tekur á þeim tilfinningum sem hindra þig, upplifir þú þær tíu sinnum öflugri en venjulega."



Ef þetta er svona vont, til hvers er þá fólk að þessu?



"Til að verða meðvitað um tilfinningar sínar og takast á við þær. Ef við tökum til dæmis reiði ­ þá er beinlínis hættulegt að bera hana innra með sér í langan tíma. Það er ekki bara hættulegt þér sjálfum og öðrum, heldur eyðir hún heilasellum, þú missir svefn, verður ringlaður og einmana. Hins vegar er ekki óheilbrigt að reiðast stundum. Við höfum orðatiltæki sem segir "letting go," það er, að sleppa hendinni af einhverju; veita því frelsi, hætta að binda það. "Letting go," þýðir í rauninni að deyja, gefast upp fyrir hinu óþekkta. Þú sleppir reiðinni sem þú þekkir svo vel og veist ekkert hvað kemur í staðinn. Einn daginn verður þú sjálfur hluti af hinu óþekkta; það er sigur. En ef þú æfir þig í að sleppa hlutunum, sjá á bak þeim, þá óttastu dauðann ekki lengur."


Ertu að segja að þetta sé fyrir mjög þroskaðar sálir?



"Búddisminn er engin þroskakeppni. Hins vegar er hann þroskandi."



Hvað myndir þú segja að búddisminn væri?



"Vakning. Þú vaknar af draumi lífsins. Þroskinn snýst um það sem þú sendir frá huga og hjarta. Þú þróar gæðin, kostina og heilindin. Þetta er ekki hægt að kenna með rituðum kenningum.



Hugleiðsla hefur áhrif á allt sem þú gerir í lífinu. Þú lærir aga í skóla til að búa þig undir námið, en hugleiðslu lærirðu til að búa þig undir lífið."



Hefur þú alltaf stundað hugleiðslu?



"Nei, ekki aldeilis," segir Kwong- roshi og hlær dátt. "Ég var bítnikki, með Allen Ginsburg og fleirum. Við afneituðum hefðum og gildismati þess samfélags sem við bjuggum í og vorum á móti öllu. Ég og konan mín vorum í háskóla, að læra heimspeki. Þetta var á tímum McCarthyismans, og þetta voru skelfilegir tímar. Í háskólanum var okkur sagt að klippa okkur. Ég neitaði. Þetta var í fyrsta sinn sem ég sagði nei. Þetta var árið 1957, mér var vísað úr skóla og ég var settur á svartan lista.



En áður en til þess kom, lenti ég í bílslysi. Ég sofnaði undir stýri ­ keyrði á vegg! Í bókstaflegri merkingu. Þá nam ég staðar.



Eftir slysið fór ég að vinna við póstútburð til að styrkja á mér fæturna, sem höfðu brotnað illa. Það var þá sem ég hitti fyrsta kennarann minn. Þegar mér var vísað úr skóla, fjórum mánuðum áður en ég átti að taka lokaprófið, hafði ég því þegar fundið þá leið sem ég vildi fara."


Morgunblaðið/Ásdís Ásgeirsdóttir
 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

OM - ॐ

Höfundur

OM
                                          OM

 

 

 

 

Þessi síða er helguð andlegum málefnum

 

Ég segi mennina boðna og velkomna, hvern veg sem þeir nálgast mig; því vegirnir, sem þeir velja sér, eru mínir vegir, hvaðan sem þeir liggja ... 

 

Bhagavad-Gita IV, 11

 

 

Netfang: leifurhl@gmail.com 

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • FB IMG 1755205790198
  • FB IMG 1694031905677
  • Cohen
  • FB IMG 1679170580329
  • FB IMG 1679170580329

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband