Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Kyrrðarbænasamtökin bjóða í bíó!

Kyrrðarbænasamtökin bjóða í bíó!

Bíó Paradís 23. október kl. 19:00.

Kvikmyndin Thomas Keating: A Rising Tide of Silence vann áheyrendaverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Aspen (Aspen Film Festival) árið 2013.
Leikstjórar myndarinnar eru Elena Mannes og Peter C. Jones.

Í kvikmyndinni er dregin upp mynd af lífi Thomas Keating sem var einn helsti kennimaður innan hugleiðsluvíddar kristinnar trúar á síðustu áratugum. Thomas var trappistamunkur og einn af stofnendum Contemplative Outreach Ltd. sem eru móðursamtök Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi en samtökin voru stofnuð til stuðnings við iðkendur Kyrrðarbænarinnar (Centering Prayer).
Thomas var einn þriggja munka sem þróuðu aðferð Kyrrðarbænarinnar, sem er þögul bæn, meðal annars með 14. aldar ritið The Cloud of Unknowing að leiðarljósi.
Thomas er virtur höfundur yfir 30 bóka og hafa tvær þeirra verið gefnar út á íslensku; Vakandi hugur, vökult hjarta í þýðingu Nínu Leósdóttur og Leiðin heim í þýðingu Karls Sigurbjörnssonar. Auk þess eru til fjölmargar myndbandsupptökur af fyrirlestrum hans. Thomas beitti sér fyrir því að koma á stað samtali á milli mismunandi trúarbragða.
Thomas fæddist í New York þann 7. mars 1923. Foreldrar hans voru auðugir og það varð fjölskyldunni töluvert áfall þegar hann ákvað að gerast munkur. Í kvikmyndinni segir Thomas frá köllun sinni, frá samskiptum við fjölskyldu sína, frá stjórnartíð sinni sem ábóti, trúarlegum upplifunum sínum meðal annars í tengslum við seinni heimstyrjöldina og mörgu fleiru.
Thomas hafði sterk tengsl við Ísland en þegar hann var ungur drengur var ung íslensk kona, Selma Ólafsson, á heimilinu sem hugsaði um börnin. Þegar fjölskylda hans brást illa við ákvörðun hans um að gerast munkur var það íslenska fóstra hans sem studdi hann dyggilega. Thomas kom til Íslands árið 2000 og margir Íslendingar hafa farið á kyrrðardaga í klaustrið í Snowmass, Colorado þegar hann dvaldi þar og fengu einstakar móttökur frá honum.
Thomas Keating lést árið 2018 þá 95 ára að aldri.
Kyrrðarbænasamtökin á Íslandi eru 10 ára gömul á þessu ári og að því tilefni er öllum áhugasömum boðið á þessa vönduðu og vel gerðu mynd um Thomas Keating sem sagði: „Þögnin er fyrsta tungumál Guðs, allt annað er léleg þýðing.“

Kvikmyndin er á ensku og verður sýnd með enskum texta mánudaginn 23. október kl. 19:00 í Bíó Paradís, Hverfisgötu 54, Reykjavík.
Frítt er inn á sýninguna og öll eru velkomin á meðan húsrúm leyfir.


Dagskrá Lífspekifélagsins föstudaginn 6. október, kl. 20:00 - Hvað eru vísindi -(ekki)?

 

 

Náttúruvísindi eins við þekkjum þau í dag eiga sér um 400 ára sögu. Í fyrirlestrinum verður rætt hvers eðlis sú þekking er sem kölluð er vísindaleg, hverjir drifkraftarnir hafa verið í leitinni að vísindalegri þekkingu og hverju sú leit hefur skilað okkur. Geta vísindi lýst öllu?
   Kristján Leósson hefur, undanfarin 25 ár unnið að rannsóknum í ljóstækni, örtækni, efnisfræði, líftækni og fleiri sviðum í háskólum, rannsóknarstofnunum og sprotafyrirtækjum. Hann hefur menntun í eðlisverkfræði, eðlisfræði, rafmagnsverkfræði og heimspeki. Hann er meðhöfundur bókarinnar Silfurberg, íslenski kristallinn sem breytti heiminum.

Kreddutrúarstefnur, þröngsýni og hið hræðilega afkvæmi þeirra ...

 

,,Ég segi mennina boðna og velkomna, hvern veg sem þeir nálgast mig, af því að vegirnir, sem þeir velja, er þeir koma hvaðanæva, eru mínir vegir." (Bhagavad Gita

   Kreddutrúarstefnur, þröngsýni og hið hræðilega afkvæmi þeirra, ofstæki, hafa lengi ríkt á jörðinni. Þau hafa fyllt loftið ofbeldi, skilið jörðina eftir blóði drifna, eyðilagt menningu og skilið heilar þjóðir eftir á vonarvöl. Hefðu þessi djöfullegu öfl ekki leikið lausum hala væri mannlegt samfélag miklu háþróaðra nú en raun ber vitni. En tími þess er kominn; og ég vona innilega að bjallan sem kallaði okkur þennan morgun til þings megi reynast tákn um banahögg alls ofstækis, hvers konar ofsókna, hvort heldur með sverði eða í orði og allrar dómhörku manna á milli og að okkur megi auðnast að vinna að sameiginlegu markmiði."

 

Brot úr ræðu sem Swami Vivekananda hélt á heimsþingi trúarbragða í Chicago árið 1893. Halldór Haraldsson þýddi. Tekið úr hausthefti Ganglera frá 2008.


Í Guðspekifélaginu ætti að ríkja andi þessarar vizku ...

 

Vizka í lífinu

En það er til uppspretta andlegrar áhrifa í hverjum manni sem aldrei bregzt. Hver maður verður að finna fyrir sig eðli þeirrar vizku sem er kölluð guðspeki, kjarna hennar, tærleika og veru. Einungis með slíkum skilningi er um að ræða einhverja þekkingu á guðspeki. Annars kostar er maðurinn – eða getur verið – lærður í öllum smáatriðum þeirra hluta sem um er fjallað, án þess að vita hvað vizka er – sú guðlega vizka sem gagnsýrir allt sem á sér stað, á sama hátt og líf ríkir í formi og knýr það – ef um er að ræða þá gerð lifandi forma – til að blómstra eins og rós.

   Í Guðspekifélaginu ætti að ríkja andi þessarar vizku, sú angan sem tilheyrir fögru líferni. Það nægir ekki að afla sér þekkingar sem aðeins er hugræns eðlis. Guðspekifélagið ætti að vera skipað fólki sem hefur gert líf sitt öðru vísi, hreinna, vinátturíkara og fegurra á allan hátt. Allur tilgangur með tilveru félagsins er sá að koma á grundvallarbreytingu – fyrst í sjálfum okkur og síðan í þeim skilyrðum, sem ríkja í kringum okkur. Félagið er ekki til orðið til að safna saman fólki sem les eitthvað sem stendur í sérstökum bókum, dregur sig út úr samfélagi við annað fólk en sína líka og veitir af hálfvelgju ákveðnum háum sjónarmiðum lið. Við ættum að gera miklu meira en það. …

Tekið úr Ganglera frá árinu 1967.


Heimsljósmessa í Lágafellsskóla 15. - 17. september.

Heimsljósmessan er fræðandi samvera um heilsu, bæði andlega og líkamlega.

Hátíðin hefst föstudagskvöldið 15. september með heilunarmessu í Lágafellskirkju kl.20.

Dagskrá í Lágafellsskóla laugardaginn 16.september kl. 11-17 og sunnudaginn 17.september kl. 11-18:30 Aðgangseyrir kr. 1.500 – miðinn gildir báða dagana.

Á Heimsljósmessunni er að finna:

• Hollustuveitingastað með hádegismat, kaffi og kökum yfir daginn

• Fjölmarga fyrirlestra

• Meðferðir: stutta prufutíma í allskyns meðferðir

• Hugleiðsluherbergi með mismunandi hugleiðslum

• Markaðstorg: sala og kynningar á ýmsu sem tengist mannrækt og heilsu, listum, námskeiðum og mat

• Hóptíma s.s. Tónheilun, Innerdance og Waterdance Skoðaðu dagskránna á heimasíðunni: https://heimsljos.is/


Námskeið í zen-hugleiðslu - Haust 2023

 

Hvenær: 14. september - 5. október 2023
Hvar: Klettháls 1, Reykjavík
Tími: Fimmtudagar 17.30-19.00 
Verð: 25.000 krónur
Skráningzen@zen.is eða með hnappnum hér að neðan

​Innifalið í námskeiðsgjaldi er þátttaka í allri dagskrá hjá Nátthaga á meðan námskeiðið varir og eru þátttakendur eindregið hvattir til að prófa að taka þátt í daglegri iðkun samkvæmt dagskrá. Þátttakendum er einnig velkomið að taka þátt í fræðsluviðburðum sem boðið er upp á: leshringjum, fyrirlestrum og fleiru.

Námskeiðið er ætlað byrjendum sem lengra komnum og
​öllum þeim sem þrá að lifa lífinu lifandi og með vakandi athygli.
​
Iðkun zazen er grundvöllur þess sem í daglegu tali kallast núvitund (e. mindfulness) eða vakandi athygli. Með því að læra að iðka Zazen ræktum við smám saman með okkur vakandi huga og meðvitund í daglegu lífi og lærum að þekkja okkur sjálf á djúpan og náinn hátt. Að þekkja sjálfa sig á þennan hátt felur í sér fræ heilunar og kennir okkur að meta lífið sem við lifum.

Markmið námskeiðsins er m.a.:

  • Að kenna öndun og vakandi athygli í zazen, sitjandi hugleiðslu.
  • Að vinna með líkamann og auka líkamsvitund
  • Að útbúa stað heima hjá sér sem er ætlaður hugleiðslu.
  • Að byggja upp hugleiðslurútínu í daglegu lífi
  • Að læra hefðbundin iðkunarform í setusal Zen Búddista og iðka zazen með öðrum


Allir eru hjartanlega velkomnir í nýtt húsnæði okkar að Kletthálsi 1 og er námskeiðið óháð trúar- eða lífsskoðunum.

Skráning fer fram með því að senda tölvupóst á zen@zen.is og greiða 25.000,- kr. námskeiðsgjald inn á reikning félagsins:

Kennitala: 491199-2539
Reikningsnúmer: 111-26-491199

...eða með því að kaupa námskeiðið sem vöru í vefverslun Zen á Íslandi - Nátthaga hér á vef félagsins með því að smella á hnappinn hér að neðan:


Mystíkerinn snéri aftur úr eyðimörkinni

 

Mystíkerinn snéri aftur úr eyðimörkinni.
,,Segðu okkur," sögðu þeir, ,,hvernig Guð er."
En hvernig átti hann að geta sagt þeim hvað hann
hafði reynt í hjarta sínu? Er hægt að setja Guð í orð?
Loks lét hann þá hafa formúlu - svo ónákvæma og
ófullnægjandi - í þeirri von að einhverjum þeirra yrði
ögrað til að upplifa þetta sjálfum.
Þeir þrifu í lausnina. Gerðu hana að helgum texta.
Þeir þvinguðu hana upp á aðra sem helgan átrúnað.
Þeir gengu í gegnum miklar þrengingar við að útbreiða
hana í fjarlægum löndum. Sumir létu jafnvel lífið fyrir hana.
Mystíkerinn var hryggur. Það hefði líklega verið betra
ef hann hefði ekkert sagt.

Anthony de Mello - Úr hausthefti Ganglera frá árinu 1993.

Hægt er að kaupa gömul hefti af Ganglera í húsakynnum Lífspekifélagsins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

OM - ॐ

Höfundur

OM
                                          OM

 

 

 

 

Þessi síða er helguð andlegum málefnum

 

Ég segi mennina boðna og velkomna, hvern veg sem þeir nálgast mig; því vegirnir, sem þeir velja sér, eru mínir vegir, hvaðan sem þeir liggja ... 

 

Bhagavad-Gita IV, 11

 

 

Netfang: leifurhl@gmail.com 

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • FB IMG 1694031905677
  • Cohen
  • FB IMG 1679170580329
  • FB IMG 1679170580329
  • FB IMG 1653925921669

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband