Kjarni málsins - Grein eftir Kristinn Ágúst Friðfinnsson sem er nýr forseti Lífspekifélagsins

 

Kjarni málsins

Nær öruggt má telja að flestir Íslendingar styðji viðleitni til að skapa einingu og samhug landsmanna án tillits til kynstofna, trúarskoðana, kynferðis, stétta eða hörundslitar. Þá er einnig líklegt að þorri lands­manna telji æskilegt að stundaður sé samanburður trúarbragða, heimspeki og vísinda og að rannsökuð séu óútskýrð náttúrulögmál og öfl þau sem leynast með mannfólkinu. Og ef við bættist sú vissa, að þessi atriði væru hornsteinar alþjóðlegs friðar og bræðra­lags er sennilegt að margir hrifust með. Ófáir verða undrandi þegar þeir heyra að til sé alþjóðleg hreyfing með útibú hér á landi sem einmitt hafi sinnt þessum málum með markvissum og skipulögðum hætti um árabil og heiti Lífspekifélagið. Úti í samfélagi okkar eru margir sem áhuga hafa á sömu stefnumiðum og félagið, en vita ekki um tilvist þess. Þeir sigla einir um hin lífspekilegu mið. Til þeirra vill félagið ná og veita þeim skjól, hjástoð og andlega næringu. Ef kjarni hinnar þreföldu stefnuskrár er dreginn saman snýst hann í fyrsta lagi um bræðralag, í öðru lagi um vitsmunalega skoðun og samanburð og í þriðja lagi um könnun óútskýrðra innri og ytri lögmála. Í enn færri orðum fjallar stefnuskráin um félagslega hvatningu, vitsmunalega hvatningu og loks hulin lög­mál. Samruni þekkingar og andlegrar vinnu leiðir til innsæis og má lýsa með einu orði, visku. Margar mikilvægar uppgötvanir og sköpunarverk í heimi vísinda og lista virðast eiga rót sína að rekja til margslungins samspils þessara þátta.

Lífspekifélagið er vettvangur

Lífspekifélagið stundar ekki innrætingu, en veitir vettvang. Það boðar ekki trú, en hvetur til hlustunar og að hver og einn standi með sjálfum sér og sann­færingu sinni. Það hefur ekkert kenningakerfi, en hvetur til virðingar fyrir lífsviðhorfum annarra. Það hefur ekki á boðstólum tilbúin svör, en hvetur til leitar. Það vill ekki fordæma skoðanir, en hvetur til skilnings á rökum að baki þeim. Það vill ekki leiða til nöturlegs hásætis ískalda skynsemi einnar, en hvetur til jafnvægis á milli vits og tilfinninga. Það flytur ekki draugasögur, en ann sannleikanum. Það gerir ekki kröfu um að vera með hinn eina sanna lampa, en varar við öllu mýrarljósi. Það krefur engan um hlýðni við flóknar yfirlýsingar, en biður um virðingu fyrir hugsjónum um samhljóm byggðum á gagnkvæmum skilningi eftir samanburð lífsviðhorfa og rannsókn á innviðum mannsins og eðli náttúrunnar. Það gengur ekki erinda einnar skoðunar umfram aðra, en hvetur til óttalausrar og frjálsrar hugsunar og tjáningar í orðvendni, varúð, hófsemi og miskunnsemi.

Verum ekki fyrir sjálfum okkur

Lífspekisinnar komast oftar en ekki að því að manneskjan sjálf er oftast fyrir sjálfri sér. Þessa hluti er ekki alltaf gott að útskýra með einföldum hætti og því er stundum gripið til þess ráðs að skýra þá með líkingum eða myndmáli. Markmið allrar andlegrar iðkunar er að komast handan við sjálfhverfar hugsanir og hætta að stunda ráðgjöf við hinn æðri veruleika. Hugleiðsla, bæn og öll sönn helgun hefur að markmiði að komast handan við sjálfið, sleppa takinu og hvíla í ólýsanlegum friði, kærleika, ljósi og hamingju og þegar best lætur finna friðsæla og viðvarandi samvitund. Viðvarandi og regluleg iðkun leiðir líka til bættrar líkamlegrar, sálrænnar, félags­legrar og andlegrar heilsu. Börnin geta kennt okkur hvernig ná má fram þessu himnaríkisástandi. Þau hvíla tómhent, örugg og áhyggjulaus í faðmi mæðra sinna, státa sig ekki af neinu, eru bara til. Síðar meir þurfum við flest að læra að treysta á ný, leyfa lífinu sjálfu að njóta vafans. Þá verðum við heil.

 

Kristinn Ágúst Friðfinnsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Þetta er í rauninni það sem að Þjóðkirkjuna vantar ef að hún á að geta haldið velli inn í framtíðina:

=Það er LEITIN AÐ LAUSNINNI Á LÍFSGÁTUNNI MEÐ ÞVÍ AÐ SKILJA EINHVERJAR SPURNIGNAR EFTIR Í LOFTINU Í SÍNUM MESSU-AUGLÝSINGUM!

(Í stað þess að auglýsa alltaf bara messa og svo eru sömu sérmoníu-orðin endurtekin aftur og aftur).

Jón Þórhallsson, 7.6.2016 kl. 13:55

2 Smámynd:                                           OM

Þú verður bara að mæta niður í Lífspekifélag og ræða við séra Kristinn Ágúst :)  

Kv. Leifur

OM , 8.6.2016 kl. 18:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

OM - ॐ

Höfundur

OM
                                          OM

 

 

 

 

Þessi síða er helguð andlegum málefnum

 

Ég segi mennina boðna og velkomna, hvern veg sem þeir nálgast mig; því vegirnir, sem þeir velja sér, eru mínir vegir, hvaðan sem þeir liggja ... 

 

Bhagavad-Gita IV, 11

 

 

Netfang: leifurhl@gmail.com 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • FB IMG 1694031905677
  • Cohen
  • FB IMG 1679170580329
  • FB IMG 1679170580329
  • FB IMG 1653925921669

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 94098

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband